Þræðir í þurru lofti

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á opnun listsýningar 17.júní á Byggðasafninu í Görðum

 

Í sýningunni Þræðir í þurru lofti rekur listakonan Edda Agnarsdóttir rætur sínar í gegnum tilviljanakennt myndefni og frásagnir um uppruna og arfleifð formæðra og feðra sinna.

Edda rannsakar flókin og marglaga sambönd fólks út frá ljósmyndum, legsteinum og sögum sem hún endurvekur í verkum sínum. Hún kannar þræði í gegnum efniskennd verka og innsetninga sem fela í sér frásagnir, persónulegar sögur listakonunnar og viðbrögð hennar við uppgötvunum og lönguninni til að vita meira.

Með því að skoða þræði sögunnar, sem virðast koma úr þurru lofti, eltir Edda rætur sínar á slóðir sem hana óraði ekki fyrir að finna.

Hér sýnir hún afrakstur uppgötvana sinna og dregur saman heilsteypta mynd af sögu, tilviljunum, brotum, þráðum í þurru lofti.

Titillinn vísar í þræði verkanna sem og þá ósýnilegu og óendanlegu þræði sem tengja fólk í gegnum tíma og rúm og berast milli kynslóða og dvelja um ókomna tíð í þurru lofti ímyndunar og hugmynda.

Sýningin er sett upp í samstarfi við Byggðasafnið á Akranesi og styrkt af Akraneskaupstað.