(Morgunblaðið, 239. tölublað - II (27.10.1982), Bls. 4)
1885: Þetta ár er byggður 85,10 tn. kútter í skipasmíðastöð John Wray & Sons í bænum Burtonon-Stather (nálægt Hull) á Englandi. Skipinu er þá trúlega strax gefið nafnið „Bacchante", og mun hafa verið gert út á togveiðar frá Hull næstu 12 árin.
1897: Jón Jónsson skipstjóri og útgerðarmaður í Melshúsum á Seltjarnarnesi fer til Hull til kaupa á kútterum. Hinn 16. júlí gengur hann frá kaupum á „Bacchante" af skútueigandanum George William Cook og greiðir fyrir skipið 325 £. Hinn 17. september sama ár selur Jón kútterinn Magnúsi Th.S. Blöndahl, trésmið í Hafnarfirði, með rá og reiða. Magnús gerði út skipið í rúmt áf og gaf því nafnið „Guðrún Blöndahl", en svo hét kona hans.
1898: Magnús Th.S. Blöndahl selur skipið hinn 28. sept. þeim Pétri Sigurðssyni útvegsmanni í Hrólfsskála á Seltjarnarnesi og Gunnsteini Einarssyni skipstjóra í Skildinganesi. Átti Pétur 2/3 í skipinu, en Gunnsteinn 1/3. Þeir gáfu kútternum nafnið „Sigurfari", en það nafn hafði verið notað um langan aldur á opnum bátum frá Hrólfsskála. Nafnbreytingin átti sér stað í maí árið 1900. Pétur og Gunnsteinn gerðu út Sigurfara til ársins 1908 og var Gunnsteinn skipstjóri öll árin. Sigurfari bar þá einkennisstafina GK17.
1908: Hinn 30. janúar það ár selja Pétur Sigurðsson og Gunnsteinn Einarsson Sigurfara verslunar- og útgerðarfyrirtækinu H.P. Duus í Reykjavík. Duus-verslun var um langt árabil stærsti útgerðaraðili þilskipa hér á landi. Sigurfari var gerður út frá Reykjavík næstu 12 árin og bar nú einkennisstafina RE 136. Skipstjórar á Sigurfara voru margir á þessu tímabili, en síðastur þeirra var Jóhannes Guðmundsson frá Hamri á Barðaströnd, kunnur aflamaður og góður sjómaður. Sigurfari þótti ágætt sjóskip, happasælt og mörg ár meðal aflahæstu þilskipa á Faxaflóasvæðinu. Aðeins er vitað um einn mannskaða á Sigurfara, en það var 21. apríl 1909, þegar báruhnútur kom á skipið, sem statt var út af Selvogi, og skipstjórinn Einar Einarsson kastaðist útbyrðis og drukknaði.
1919: Þá um haustið seldi Duusverslunin Sigurfara Sörin Sörensen á Viðareiði í Færeyjum. í nóvember komu 6 Færeyingar hingað til lands til að að sækja skipið, en þegar það var loks ferðbúið um miðjan janúar höfðu fjórir þeirra haldið til síns heima. í stað þeirra réðust 4 íslendingar á skipið. Haldið var úr höfn 19. janúar 1920. Skipstjórinn var Sigmund Mikkelsen og stýrimaður Ziska Jacobsen. Skömmu eftir að skipið lagði úr höfn gerði aftakaveður, sem hélst látlaust um mánaðarskeið. Hraktist Sigurfari um hafið milli íslands og Færeyja vikum saman. Stórbóman brotnaði og seglbúnaður skemmdist, vistir þraut og eldivið. Til að bjarga sér frá sulti, gengu skipverjar í farminn, en hann var m.a. kjöt, mjölvara og rúsínur. Til eldunar notuðu þeir bómuna og klæðninguna innan úr lúkarnum. Hinn 4. febrúar taldi Sigmund skipstjóri vonlítið að þeir næðu lifandi landi og kastaði þvi út flöskuskeyti er greindi frá hrakningum þeirra og beðið var fyrir boð til unnustu hans í Færeyjum. Var Sigurfari talinn af og birtist um það frétt í Morgunblaðinu 17. febrúar. Réttum 10 dögum síðar náði Sigurfari inn til Seyðisfjarðar. Þá geisaði spánska veikin í kaupstaðnum, en þrátt fyrir það fengu skipverjar hinar bestu móttökur. Eftir 12 daga viðdvöl og viðgerð á skipinu var haldið til hafs á ný, og höfðu nú 5 Norðmenn bæst í hópinn. Tók ferðin til Færeyja aðeins 5 daga og hinn 16. mars létti Sigurfari akkerum í Klakksvík. Skipverjar urðu þó vegna hættu á smiti af spönsku veikinni að hírast í 10 daga til viðbótar um borð í skipinu. Voru þá liðnir rúmir 2 mánuðir frá því að Sigurfarinn lét úr höfn í Reykjavík. Flöskuna með skeyti Sigmunds rak á fjörur í Skipsfjord á eynni Vannoy í Noregi og fannst í ágúst sama ár.
1921 — 1971: Sigurfari KG 378 var gerður út frá Viðareiði í eitt ár, én síðan í rétt 50 ár frá Klakksvík. Þann tíma var hann í eigu nokkurra aðila, en lengst og síðast í eigu Pf. Joensen & Olsen. Á þeim tíma voru gerðar ýmsar breytingar og endurbætur á skipinu, dekk og hluti byrðings endurnýjaður, vél sett í bátinn 1929, stýrishús, beitningarskýli o.m.fl. Sigurfara var síðast haldið út til fiskjar sumarið 1970 og var Urbanus Olsen í Klakksvík skipstjóri á hpnum mörg síðustu árin.
1974 Sigurfari er keyptur til Íslands að undirlagi Jóns M. Guðjónssonar prests á Akranesi. Hann stendur nú á steyptum undirstöðum á safnasvæðinu á Görðum á Akranesi.