Að drekka kaffi er mörgum kunnugt og mörg kynnast því ung að aldri. Fyrstu heimildir um kaffi hér á landi eru frá árinu 1703 en það náði ekki almennri útbreiðslu fyrr en um miðja 19.öld. Í fyrstu var kaffi aðeins haft um hönd á heimilum efnaðs fólks því kaffibaunir voru dýrar. Það var orðin alsiða að drekka kaffi á Alþingi við lok 18. aldar og um miðja 19. öldina var drykkja kaffis orðin frekar almenn meðal bændafólks á Íslandi. Komu þá til sögunnar kaffitímar í daglegri máltíðaskipan. Þó svo að kaffi drykkja hafi ekki verið orðin almenn hér lendis var það orðinn almennur siður að hittast yfir kaffibolla í öðrum hlutum heimsins og er talið að fyrsta kaffihúsið hafi opnað í Istanbúl árið 1544 og hafa þau skotið upp kollinum á ýmsum stöðum æ síðar. Við það að kaffi drykkja varð algengari og almennari, jókst magn áhalda og hluta í eldhúsum landans, og kaffikatlar, kaffikönnur, kaffikvarnir og kaffibrennarar orðin staðalbúnaður á flestum heimilum.
Í sýningunni Kaffi - ærmiga í sólskini verður fjallað um kaffi og ljósinu beint að þeim munum sem varðveittir eru í munasafni Byggðasafnsins í Görðum á Akranesi. Skoðað verður hvað fólk þurfti að eiga í heimkynnum sínum til að geta unnið kaffið sjálft heima hjá sér, lagað það, drukkið og boðið gestum uppá nýlagaða húsblöndu ef svo bar að.
Kaffibaunir voru lengst af fluttar inn óunnar en fólk brenndi og malaði sjálft heima hjá sér. Það fylgdi því heilmikið umstang að vinna baunirnar svo að hægt væri nýta þær til að hella uppá kaffi. Nú á dögum er töluvert auðveldara að verða sér út um kaffibolla en það var í byrjun 18. aldarinnar. Með því að þrýsta á einn hnapp líða einungis fáeinar sekúntur í bið eftir ljúffengum kaffisopa hvenær sem er sólarhringsins.
Sýningin opnaði þann 16. mars 2024 í sérsýningarrýminu Steypan á Byggðasafninu í Görðum á Akranesi og stóð til 9. júní. Að því tilefni var boðið uppá leikrænan bollalestur þann 16. mars í sýningarrýminu.
Myndir @Blik Stúdíó