Ýmiss konar iðnaður, allt frá áhaldasmíði til bátagerðar, hefur verið stundaður hérlendis frá landnámi.
Á síðari hluta 19. aldar jókst þéttbýlismyndun á Íslandi. Þegar íbúum fjölgaði á Akranesi jókst þörf á fjölbreyttri þjónustu og skilvirkum framleiðsluháttum. Sjávarútvegur var eftir sem áður undirstaða iðnaðar. Í kringum hann mynduðust margvísleg störf og stéttir.
Fyrsta stóriðjuskrefið var tekið með byggingu Sementsverksmiðju ríkisins, sem var um árabil einn af burðarásunum í atvinnulífi Akurnesinga. Á 8. áratugnum byggðist upp iðnaðarsvæði við Grundartanga sem hefur fjölgað atvinnutækifærum á svæðinu.