Eftir Braga Þórðarson (Árbók Akurnesinga 2016, bls. 138-146)
Einn af fyrstu bílstjórunum á Akranesi í byrjun 20. aldar var Þórður Þ. Þórðarson sem rak Bifreiðastöð ÞÞÞ. Hann gekk ávallt undir nafninu Steini á Hvítanesi. Lengst af annaðist hann vöruflutninga- og fólksflutninga milli Akraness og Reykjavíkur, einnig mjólkur- flutninga fyrir bændur sunnan Skarðsheiðar um 14 ára skeið. Þá annaðist hann hópferðir víða um land.
Árið 1922 var fyrsti vörubíllinn keyptur til Akraness. Eigendur hans voru þeir Þórður Ásmundsson útgerðarmaður og Bjarni Olafsson skipstjóri, sem höfðu keypt fyrsta traktorinn, sem hingað kom, 1918. Þetta var Ford-vörubíll með keðjudrifi. Bílstjóri var Sveinbjörn Oddsson, en hann lauk bílprófi 4. mars 1922, og var fyrsti bílstjórinn á Akra- nesi. Næstur var Magnús Gunnlaugsson, sem lauk bílprófi 22. desember 1926. Steini tók bílprófið 1927 og rifjar það upp ásamt fleiri minningum í viðtali, sem ég skráði eftir honum 1980. Þessar minningar Steina eru í bók minni Baráttufólk sem kom út hjá Uppheimum 2008.
„Vorið 1927 fór ég til Reykjavíkur og samdi við Svein Egilsson að kenna mér á bíl. Við vorum nokkrir strákar í þessu ökunámi, einn þeirra var Jóhannes Helgason í Þórshamri. Ég var látinn keyra allan daginn í nokkra daga og var strákur af verkstæðinu látinn kenna mér. Skiptingin í bílnum var svokölluð „High“ og „Low“. Þá var ekki hægt að skipta nema pedalinn í gólfinu lægi akkúrat til hálfs, maður varð að láta hann koma svoleiðis upp, ekki of langt og ekki of stutt.
Þegar kom að prófi mætti Jón í „Eftirlitinu”, og prófaði hann mig ásamt Agli Vil- hjálmssyni. Keyrði ég sem leið lá eftir Hverfis- götunni. Allt gekk vel, en skyndilega hélt ég á stýrinu lausu í hendinni. Hver fjandinn var nú hlaupinn í bílinn? Það vildi mér til happs að ég steig strax á bremsuna og bíllinn snarstoppaði án þess að slys yrði af þessu. Ég get ekki neitað því að mér brá svakalega. Var stýrið síðan fest aftur á bílinn, ég lauk prófkeyrslunni og fékk skírteini. Tveimur árum seinna tók ég svo meiraprófið og mátti þá keyra fólk. Skírteinið mitt er R-818.“
„Þegar ég var kominn með prófið keypti ég hinn langþráða vörubíl. Hann kostaði 3000 krónur. Það voru miklir peningar. Flutti ég bílinn upp á Akranes og byrjaði að keyra. Má segja að fyrirtækið ÞÞÞ hafi verið stofn- að þá, árið 1927. Ég fékk strax vinnu hjá Haraldi Böðvarssyni við að keyra fiski vestan úr Sundum, en þar lönduðu bátarnir á þeim árum, yfir í fiskverkunarhús Haraldar. Svo keyrði ég saltfiski af reitunum og fleira sem til féll hjá honum. Göturnar voru mjóar og erfitt að komast leiðar sinnar sums staðar. Ég keyrði líka fyrir bræðurna á Hofi, Einar og Skafta Jónssyni, sem gerðu út bátinn Kveldúlf. Þeir voru miklir ágætis menn, en drukknuðu, langt um aldur fram þegar Kveldúlfur fórst í janúar 1933.
Vegakerfið út frá Akranesi var ekki beysið á þessum árum. Vegurinn endaði inni við Berja- dalsá. Tók ég upp á því að leyfa fólki að sitja á pallinum og fara inn að Berjadalsá og heim aftur. Þótti þetta mikil tilbreyting og nýjung og var vinsæll sunnudagsrúntur. Smátt og smátt fór ég að aka lengra á móunum og melunum.“
Þegar Steini hóf bifreiðaakstur voru nánast engir bílvegir til og frá Akranesi. Ekið var eftir melum og vegaslóðum hestvagna. I vætutíð fór allt á kaf í drullu. Bílarnir sukku í vegarslóðana og bílstjórarnir strituðu með skóflur og járnkarla við að losa þá, aldrei hvarflaði að mönnum að gefast upp. Steini var feykilega duglegur og áræðinn og tókst að komast um ótrúlegar vegleysur með fólk og flutninga. Fyrsta ferð hans fyrir Akurnesinga á bíl fyrir Hvalfjörð var haustið 1930. Þórður rifjar upp:
„Þetta haust var ég í vinnu hjá Haraldi Böðvarssyni. Hann vantaði bíla til að losa salt úr skipi í Keflavík og flytja það til Sandgerðis, en þá var enga bíla að fá í Keflavík. Vorum við sendir landleiðina fyrir Hvalfjörð, en skömmu áður höfðu fjórir menn úr Reykja- vík farið þessa leið í fyrsta skipti. Við vorum á þremur bílum. A undan mér voru þeir Leifur Finnsson og Kristján Ásmundsson. Færðin var afleit og mikil hálka á veginum. Settum við keðjur á bílana. Gekk þó allt sæmilega þangað til við komum að Reynivallahálsi í Kjós. Þá byrjuðu vandræðin. Vegurinn lá upp á fjallið. I fyrstu atrennu komst ég upp í miðja hlíðina, en þá byrjaði bíllinn að renna afturábak niður aftur. Gerðum við þrjár atrennur, en þá sviku keðjurnar algjörlega og engin leið að tjasla þeim saman. Skildum við bílana eftir og löbbuðum að Hálsi og gistum þar um nóttina.
Morguninn eftir hringdi ég í Harald. Hann var þá staddur á Hótel Borg í Reykja- vík. Bað ég hann að senda mér keðjur með mjólkurbílnum og gerði hann það. Þegar við fengum nýjar keðjur tókst okkur að komast yfir hálsinn og alla leið til Keflavíkur. Þar tókum við til að flytja saltið úr skipinu til Sandgerðis. Lukum við því um kvöldið. Var síðan haldið til Reykjavíkur og gist þar.
Næsta morgun var komið vonskuveður, kafaldsbylur og hvassviðri. Við ákváðum samt að leggja af stað heim á Skaga fyrir Hvalfjörð. Okkur tókst að komast inn að Laxnesi í Kjós, en þá voru bílarnir orðnir fastir á bólakafi í snjó og engin leið að losa þá. Bóndinn þar var einbúi og sendum við hann yfir að Hálsi til þess að sækja mannskap til að losa okkur úr skaflinum. Karlinn varð að vaða yfir ána, því að engin brú var á henni. Tókst honum að ná í mannskap og bílarnir voru mokaðir úr sköflunum. Var komið fram á kvöld þegar við komumst að Hálsi og gistum þar um nóttina. Snemma um morguninn lögðum við síðan af stað upp á Reynivallahálsinn. Þá var hætt að snjóa og farið að rigna. Vorum við allan daginn að berjast við að komast yfir hálsinn í bleytu og drullu.
Undir kvöld vorum við komnir að slakkanum rétt við Hvítanes í Kjós og búnir að festa bílana í drullu. Yfirgáfum við bílana og löbbuðum heim að Hvítanesi og báðum um gistingu. Það var velkomið og okkur boðið að gista í hlöðunni. Skömmu áður hafði ég verið einn á ferð þarna á drossíunni og boðið hjónunum á bænum ókeypis far til Reykjavíkur. Þegar bóndinn kom auga mig í hópnum bauð hann mér samstundis að fá hjónarúmið. Þáði ég það og tók með mér í rúmið tvo félaga mína, þá Kristján Ásmundsson og Agnar Sigurðsson. Um miðja nótt vaknaði ég við það að allt var rennandi blautt í rúminu. Vakti ég félaga mína og spurði hvort þeir hefðu pissað undir. Eftir nokkurt rifrildi um það komumst við að því að þakið var hriplekt og regnvatnið hafði runnið undir okkur. Næsta morgun sendum við mann út að Hálsi til að hringja í Harald og segja honum að bílarnir væru kolfastir, en enginn sími var í Hvítanesi. Fengum við þau boð frá honum að skilja bílana eftir og halda af stað heimleiðis gangandi fyrir Hvalfjörð. Kvaðst hann mundi senda bíl á móti okkur frá Akranesi eins langt og komist yrði. Héldum við síðan af stað gangandi, en fengum lánaðan hest fyrir Agnar, sem ekki gat gengið sökum fötlunar á fæti. Leiðin lá fyrir Brynjudalsvoginn inn með Múlafjalli, yfir Botnsána og út Þyrils- hlíðina heim að Þyrli. Mikið af aurskriðum hafði runnið yfir veginn og töldum við þrettán skriður á leiðinni frá Hvítanesi út að Þyrli. Þar hittum við Guðmund Jónasson fjallabíl- stjóra, en hann hafði komist þangað nokkru á undan okkur. Var hann á leið norður yfir Dragháls. Fengum við far með honum út að Ferstiklu, en hann hélt áfram ferð sinni yfir Dragann. Héldum við áfram gangandi út að Saurbæjargili, en þangað var þá kominn bíll frá Haraldi til að sækja okkur. Bílstjóri var Haraldur Kristmannsson, sem komst ekki lengra en að Saurbæ. Fórum við með honum út á Akranes eftir sögulega ferð. Vorum við fimm daga að strita við þetta. Löngu seinna, þegar komið var frost, sendi Haraldur bát og mannskap til að losa bílana og tókst okkur þá að keyra þá heim á Akranes.“
„Ég keypti minn fyrsta fólksbíl í félagi við Harald Böðvarsson. Fór ég margar ferðir með þau hjónin um nágrennið og upp í Borgar- fjörð. Það var mikil eftirspurn hjá mönnum að læra á bíl og kenndi ég um 40 manns fyrir bílpróf. Haraldur Böðvarsson lærði aðeins á bílinn og keyrði inni á Langasandi. Einu sinni þegar við vorum á ferð uppi í Borgar- firði bað hann um að fá að keyra. Það var auðsótt mál og settist hann undir stýri. Ekki fékk hann að keyra langt því að Ingunn vildi að ég keyrði bílinn.
Mér fannst engin ástæða til að eiga bíl í félagi við Harald og sagði honum að ég vildi kaupa hans hlut í bílnum og reka bílinn sjálfur. Hann var tregur til, en féllst að lokum á það. Þegar hann keypti sinn fyrsta bíl vildi hann ráða mig sem einkabílstjóra en ég harðneitaði því, vildi ráða mér sjálfur.”
Sumarið 1930 var mikill áhugi fólks að komast á Alþingishátíðina á Þingvöllum. Dagskráin fór fram dagana 26.-28. júní (fimmtudag til laugardags). Um vorið höfðu vegagerðarmenn verið önnum kafnir við að lagfæra vegi til þess að unnt væri að koma sem flestu fólki þangað. Þá varð fært um Kaldadal og veitingasala opnuð á Húsafelli. Flestir ferðuðust þó til Reykjavíkur sjóleiðina. Goðafoss kom frá Vestfjörðum með 2-300 manns, Gullfoss kom að norðan með 350 farþega, Brúarfoss af Austfjörðum með 150 farþega og Lagarfoss með 30-40 manns. Akurnesingar fóru til Reykjavíkur með Suðurlandinu og mótorbátum. Fáeinir fóru þó landleiðina með fólksbílum yfir Kaldadal. Um það segir Steini:
„Við vorum þrír héðan af Akranesi, sem héldum með farþega til Þingvalla, auk mín þeir Magnús Gunnlaugsson og Jóhannes Helgason í Þórshamri. Það var rigning og þoka á heiðum, ekki besta veðrið til aksturs miðað ástand veganna. Við ókum frá Akra- nesi fyrir Hafnarfjall, yfir Andakílsá, fram Reykholtsdal, Hálsasveit og yfir Kaldadal á Þingvöll. Við vorum í samfloti og það tók okkur sólarhring að komast á leiðarenda. Mestan tímann var rigningarsuddi og oft þurfti að losa bílana úr drullu. Þegar við komum á Þingvöll losuðum við okkur við farþegana og ókum strax Kjósarveginn til Reykjavíkur. Við ætluðum að keyra með farþega frá Reykjavík á Þingvöll, því að þar vantaði fleiri bíla. Þegar við komum til Reykjavíkur beið hópur fólks eftir bílfari á Þingvöll. Við tókum farþega, ókum síðan gamla veginn austur yfir Hellisheiði og til baka Mosfellsheiðina til Reykjavíkur. Það var einstefna. Það var lítið sofið þessa sólar- hringa, helst lagt sig stundarkorn í bílnum um blánóttina.”
A sunnudag héldu þeir aftur til Akraness um Kaldadal sömu leið til baka. Hrepptu þeir versta veður, stórviðri og slydduhríð, mikla bleytu og ófærð. Þurftu þeir oft að setja á keðjur og moka sig upp úr drullunni. Farþegarnir þurftu að hjálpa til við að losa bílana og þegar heim kom voru allir blautir og hraktir, en ánægðir með það sem þeir upplifðu á Alþingishátíðinni.
Steini rifjaði upp aðra ferð yfir Kaldadal:
„Seinni part þetta viðburðaríka sumar, 1930, keypti ég annan bíl, Dodge. Réði ég Kristján Ásmundsson til að keyra fyrir mig annan bílinn. Þegar nýi bíllinn var kominn í land í Reykjavík ákvað ég að bjóða tengda- foreldrum mínum með í ferð til Reykjavíkur til þess að sækja bílinn og aka með yfir Kalda- dal til Akraness. Fékk ég Kristján með mér í þessa ferð. Við fórum með Suðurlandinu til Reykjavíkur og þar beið bíllinn í kassanum. Við rifum utan af honum kassann og bíllinn fór í gang í fyrsta starti.
Seint um kvöldið lögðum við af stað heim yfir Kaldadal. Vegurinn var orðinn skárri en hafði verið lagaður eftir sumarið. Ég keyrði fyrsta áfangann upp á miðjan Kaldadal Það var þokudjöfull á leiðinni og lítið útsýni. Ég var orðinn þreyttur og bað Kristján að taka við stýrinu, ég ætlaði að leggja mig smá- stund. Eftir dágóðan tíma vakna ég aftur og sé þá að bíllinn stefnir í átt til Reykjavíkur. Þokan lá enn yfir og ég spyr Kristján hvað hann sé að fara. Hann sagðist vera á réttri leið og tengdapabbi stóð með honum. Ég var nú ekki aldeilis á því að samþykkja þetta og skipaði honum að snúa við aftur. Þeir héldu fast við sitt, en ég gaf ekkert eftir, lét stöðva bílinn, settist sjálfur undir stýri og sneri við.
Þarna voru vegarslóðar þvers og kruss og menn hreinlega snarvilltir í þokunni. Ég var búinn að fara þessa leið oft áður og þekkti fjallshlíðina, sem var komin á vinstri hönd, og vissi að hún átti að vera til hægri, en það rétt grillti í hana í þokunni. Brátt kom í Ijós að ég hafði á réttu að standa. Þegar við komum niður í Reykholtsdal, fórum við að Kópareykjum, þar sem við þáðum rausnarlegar veitingar. Héldum við síðan út á Akranes án frekari tafa, en þá var þokan farin. Tengdaforeldrar mínir voru afar ánægðir með að komast þessa leið í bíl. Það þótti þeim mikið ævintýri,“ sagði Steini á Hvítanesi.
Eins og lesa má hér að framan voru þessar ferðir á fyrstu árum bílanna aðeins fyrir hraustmenni sem ekkert létu sér fyrir brjósti brenna.
Steini rifjar upp sögur:
„Ég var að keyra síðustu ferðina frá Ölver út á Akranes á sunnudagskvöldi með fulla rútuna af farþegum, og þurfti að ná skipinu áður en það færi til Reykjavíkur um kvöldið. Þegar ég var kominn á móts við Vogatungu stóð lögreglumaður úr Reykjavík við vegar- kantinn og bað um far. Ég sagði honum að ekkert sæti væri laust í bílnum, sem satt var, þar væri ekki hægt að koma barni til viðbótar, hvað þá fullvöxnum karlmanni. Kvaðst ég tilbúinn að binda hann á toppinn, ef hann vildi, þar væri eina smugan, sem hægt væri að nota. Hann átti engra annarra kosta völ. Ég lét hann leggjast upp á toppinn og batt hann með kaðli ofan á farangurinn. Hann var stirður og kaldur þegar við komum út á Skaga.
Öðru sinni var ég að koma á laugardags- kvöldi ofan úr Borgarfirði á drossíunni með fullan bílinn af farþegum. Við afleggjarann upp að Leirá stóð maður í sparifötunum með hálstau og hvaðeina og vantaði far út á Akranes. Hann ætlaði á ball í Báruhúsinu. Ég sagði honum að ekkert pláss væri í bílnum, en sagði svo, meira í gríni en alvöru, að hann mætti standa aftan á stuðaranum ef hann vildi. Hann vildi allt til vinna að komast á ballið og kvaðst þiggja það. Steig hann síðan upp á stuðarann og ég súrraði kaðli utan um hann og festi við bílinn. Nú fór að rigna og vegurinn varð fljótlega vaðandi drulla. Síðan keyrði ég niður í Skaga. Það var ekki sjón að sjá hann þegar ég losaði hann við dyrnar á Báruhúsinu. Hann var rennandi blautur og skórnir, fötin og flibbinn þakin brúnni leðju. Já, það var stundum mikið á sig lagt til að komast á böllin,“ sagði Steini á Hvítanesi.