Í sveitum landsins fólst afþreying lengst af í sagnamennsku og kveðskap. Ekki var um auðugan garð að gresja fyrir þá sem vildu rækta aðra hæfileika. Með myndun þéttbýlis, í kringum nýja atvinnuþætti, varð til jarðvegur fyrir fjölbreyttari afþreyingu. Ýmiss konar félagsstarf á borð við leiklist, kóra, íþróttir, dansleiki og kvikmyndasýningar settu svip á líf bæjarbúa að loknum vinnudegi.
Bifreiðar gegndu lykilhlutverki á rúntinum. Þær voru í senn stöðutákn og sjálfstæðisyfirlýsing. Tónlistin í bíltækinu var líka viss tjáning, gjarnan spiluð á háum styrk svo eftir yrði tekið. Á rúntinum varð bíllinn athvarf fyrir vinskap, skyldur hversdagsins biðu annars staðar.