Geirsstaðir

Geirsstaðir voru byggðir árið 1903 af Sigurgeiri Guðmundssyni, föður Odds sterka af Skaganum og stóðu við Skólabraut 24. Húsið var upphaflega ein hæð með lágreistu þaki en var stækkað árið 1908 og hefur verið óbreytt síðan. Geirsstaðir voru heimili alþýðufjölskyldna. Frá því um 1950 og fram til 1971 starfrækti Kristín Jónsdóttir tímakennslu á heimili sínu fyrir börn á forskólaaldri. Húsið var þá iðulega nefnt „Háskólinn á Geirsstöðum“. Í húsinu var búið til ársins 1992. Ráðgert er að gera húsið upp á næstu árum.