Akraneskartöflurnar (2016)

Eftir Ingibjörgu Gestsdóttur (Árbók Akurnesinga 2016, bls. 149-156)

 

Fróðleikssmælki: Vilmundur Hansen

 

Stundum var - og er kannski enn - talað um K-in 3 á Akranesi: fagrar konur, góða knatt- spyrnumenn og frábærar kartöflur.

Konurnar eru enn fallegar á Skaganum, um það verður ekki deilt, mikið hefur verið skrifað um knattspyrnuhetjurnar og nú er komið að kartöflunum. I þessar grein verður lítillega fjallað um upphafsmenn ræktunar í héraðinu, blómaskeið Akraneskartaflanna og loks þegar breytt samfélag og kannski ekki síst sýkingar leiddu til hruns ræktunarinnar.

Ólafur á Innri-Hólmi

Áður en þéttbýli myndaðist við tjarnarendann í Reykjavík, og plássið fékk kaupstaðar- réttindi, voru aðrar hugmyndir í gangi um hvar ætti að reisa í landinu höfuðstað. Ólafur Stephensen bjó að Innri-Hólmi en hann keypti staðinn þar 1780. Ólafur hafði mikinn hug á að reisa höfuðstað norðan megin við Faxaflóann. Hann var ríkasti maður landsins og átti tugi jarða sunnan Skarðsheiðarinnar og á Skaganum. Landleysingjar í þurrabúðum urðu að róa á skipum hans, sem skiptu tugum, og máttu ekki róa fyrir sjálfa sig. Ólafur gerði ráð fyrir að við Akranes yrði nægilega góð höfn og upplandið í Borgarfirðinum gæti þjónað bænum miklu betur en hæðarmóarnir í kringum Reykjavík. Ólafur var mikill áhugamaður um ýmiskonar handiðnað og trúði því að smáiðnaður væri hagnýtur þegar stofna skyldi kaupstaði. I bæklingi hans um verslunarsögu segir:

„Hve auðvelt hefði það ekki verið ef hér settust að 10 kaupmenn, ásamt þeim lands- mönnum öðrum sem hefðu áhuga á því og þetta fólk setti upp jafnmörg verkstæði í kaupstöðum svo sem línstofu, kaðlagerð, feldgerð, hanskagerð, sokkaverkstæði, sútunarverkstæði, skósmíðaverkstæði, klæðskerastofu, hattagerð og rennismíð.“

Það sést á þessari upptalningu að Ólafur var stórhuga maður.

Meðan hann bjó á Innra-Hólmi voru um 40 manns í búi þar. Hann ræktaði og átti matjurtagarð og sagðist fæða fólkið sitt með mat úr honum einu sinni á dag, frá miðjum ágúst fram á miðjan vetur, og sparaði sér því kaup á um 15 tunnum mjöls. Ólafur var orðinn kunnur fyrir garðrækt áður en hann fluttist að Innri-Hólmi því Hið konunglega danska landsbústjórnarfélag veitti honum gullverðlaun fyrir kartöflurækt 1772-1773.

Ekkert varð úr þeirri hugmynd Olafs að höfuðstaðurinn risi norðanmegin Faxaflóa og Ijóst að ára Ingólfs var of sterk. Fólkið á Skaganum hélt því áfram að róa til fiskjar og sinna fjölbreytilegum búskap og varð það hlutskipti prestsins á Melum, Bjarna Arngrímssonar, sem lærði handtökin hjá garðyrkjumanni Levetzow á Bessastöðum, að verða leiðandi í ræktun í héraðinu. Bjarni gaf út sínar tvær fyrstu bækur árið 1816. Önnur var barnakver sem margsinnis var endurútgefið en hin fjallar um garðyrkju og heitir því ógnarlanga nafni: 


Handhægt garðyrkjufræðikver ætlað miður æfðum kálbændum til glöggvun- ar. Samið eftir eigin tilraun og kennslu af Bjarna Arngrímssyni, sóknarpresti til Mela- og Leirár í Borgarfjarðarsýslu. - raunin er ólygnust.

 

Faðir kartöflunnar á Akranesi

Einn þeirra sem ólst upp við barnakver séra Bjarna var Sigurður Lynge. Hann var fæddur árið 1813 að Hurðarbaki í Svínadal. Afi Sigurðar var Rasmus Lynge, kaupmaður og bóndi á Akureyri. Rasmus var mikill ræktunarmaður og enn í dag sést móta fyrir kálgörðum hans í bröttum brekkuhalla á Hofsósi, fyrir ofan Vesturfarasetrið.

Sigurður var sonur Jóhannesar prentara Lynge í Leirárgörðum og er talinn upphafs- maður kartöfluræktar á Akranesi. Jarðræktar- félag Akranes var stofnað 1847 en þá hafði Sigurður þegar ræktað kartöflur í þrjú ár. Á Akranesi á þessum tíma var aðallega þurrabúð og menn lifðu af sjónum. Verslun þurfti að sækja til Reykjavíkur eða þar til Akranes fékk löggildingu sem verslunarstaður árið 1864. Sendinn jarðvegurinn við strandlengjuna var vel fallinn til ræktunar, ekki síst til að rækta kartöflur, og er enn þann dag í dag talað um sandkartöflurnar góðu. Að hinu sama komust líka þeir Eggert Olafsson og Björn Halldórsson vestur í Sauðlauksdal. Þeir gerðu hinar ýmsu tilraunir með að rækta „hin rauðu jarðepli“ og komust að því að sendinn jarðvegur reyndist best og þegar ræktunarlandið sneri mót sólu.

Auk þess að vera frumkvöðull í kartöflu- ræktun er talið að Sigurður Lynge hafi verið fyrsti maður á Skaga til að gera skurði til jarðabóta. Á árunum 1862-1872 bjó Sigurður á Miðteigi (Guðrúnarkoti) í sambýli við Hallgrím hreppsstjóra Jónsson. Sigurður var mjög fjölhæfur maður, listaskrifari og víðlesinn og fékkst lengi við kennslu á Akranesi (frá 1836-1880). Hann skrifaði dagbækur sem nú eru geymdar á Landsbókasafninu. Þær ná yfir árin 1836 til 1890 og veita innsýn í líf fólksins á Skaganum og fjölbreytnina í því sem Sigurður tók sér fyrir hendur því auk þess að róa til fiskjar og yrkja jörðina fékkst hann við vefnað, vegagerð, reið net, spann hamp, saumaði segl og skinnfatnað, svo eitthvað sé nefnt. Svo til allt nema rúgurinn, kaffið og sykurinn var heimafengið. Sigurður var kvæntur en eignaðist engin börn en ól önn fyrir móður sinni sem bjó á heimili hans.

Skrif Sigurðar í dagbókina um kartöflu- ræktina og garðræktina sýna að hann taldi ræktunina tilheyra almennum búskap og því hafi ekki tekið því að skrifa um hana sérstaklega og kartöfluræktina, sem honum farnaðist svona vel, minntist hann varla á í dagbókunum. Ein færsla frá 13. maí 1851 hljóðar svo: „Sáð í norðurgarðinn, sáði jeg jarðeplum í garðana, fór systir mín frá mér vistferðum til Jónasar á Leirá.“

Fólkið á Skaganum tók kartöfluræktunina upp eftir Sigurði og þegar fram liðu stundir fór útlit bæjarins og landslagið að einkennast af kartöflugörðum. Taka varð tillit til garð- anna og þeir höfðu veruleg áhrif þegar gengið var í að skipuleggja byggðina á Akranesi í byrjun tuttugustu aldar. Segir í uppkasti að skipulagsuppdrætti og skipulagslýsingu frá árinu 1925 m.a.:

„Akranes hefur byggst með þeim einkenni- lega hætti að byggðin er tiltölulega dreifð og stórir garðar og túnblettir milli húsa. Hefir þetta þótt hentugt vegna mikillar garðræktar. sem líklegt er að haldist við (...) Þó höfum við víða gert ráð fyrir að kartöflugarðarnir minnki smám saman er fólki fjölgar og byggðin vex og sýnt er á uppdrættinum hvernig götur skal leggja yfir stærstu garðana þegar þeir verða teknir til byggingar.“

Árið 1907 kemur fram í Landhagskýrslum að á Akranesi, þ.e. Ytri-Akraneshrepp, var meiri kartöfluuppskera en í nokkru öðru sveitarfélagi á Íslandi eða 118,2 tonn. I héraðslýsingum kemur fram að vorgott hafi verið undir Akrafjalli svo oft munaði þremur til fjórum vikum, hve gróður var fyrr á ferð- inni þar en víða annarsstaðar.

Fleiri höfðu áhuga á því að vel tækist til við ræktunina. Árið 1867 sendir Hallgrímur Jónsson hreppstjóri bréf til allra hreppstjóra í Strandar- og Leirárhreppum og biður þá að senda sér nákvæmt yfirlit yfir kartöflugarða og hvaða uppskeru fáist að hausti.

Akraneskartöflurnar

Akraneskartöflurnar þóttu einstaklega góðar matkartöflur og urðu landsfrægar fyrir gæðin.

Þær höfðu gulan hýðislit, voru hnöttóttar, með djúpum augum og gular að innan. Trúlega voru þær ekki eitt sérstakt afbrigði heldur af sama stofni og þær sem eru kallaðar gular íslenskar og árangurinn af ræktuninni væntanlega samspil á milli afbrigðis og heppilegt jarðvegs. Og hafandi sjóinn á þrjá vegu hefur haft sitt að segja um hlýindi að vorinu þegar sett var niður.

Í blöðum frá fyrri hluta tuttugustu aldar mátti sjá auglýsingar um þessar góðu kartöflur. í Vísi frá 26. september má t.d. lesa eftir- farandi:

„Akraneskartöflur koma nú daglega til bæjarins, margir tugir tunna á hverjum degi og er þeim tekið hjer fegins hendi. Láta mun nærri að Akurnesingar selji hjer kartöflur fyrir 20 þúsundir kr. árlega og í ár hefur uppskeran verið með besta móti. I landshagsskýrslunum síðustu er talið að kartöfluuppskeran í Ytri- Akraneshreppi sje 1491 tunna (árið 1910) en þetta mun vera of lágt talið. Kunnugir menn segja hana um eða yfir tvö þús. tunnur.“ 

 

 

Þegar kartöflusýkingar fóru að berast til landsins upp úr 1950 reyndist þetta víðfræga kartöflukyn mjög næmt fyrir óværunni og nú er lítið eða ekkert eftir af upprunalegum kartöflustofni á Skaganum. Þessi sýking var mikið áfall fyrir ræktendur. Þegar bærinn stækkaði og fólk flutti sig til mátti það ekki taka með sér gamla útsæðið á ósýkta staði því það hefði borið með sér veirur sem lifðu í moldinni. Því hættu margir ræktun þessa afbrigðis eða hættu algjörlega ræktun á kart- öflum. I grein sem birtist í Vísi árið 1953 og ber heitið Akurnesingar öruggir um að síldin komi, er líður á haustið, segir í niðurlagi þeirrar greinar:

 

 

„Kartöflurækt á Akranesi er nú ekki nema svipur hjá sjón, miðað við það sem áður var þegar hver lóðarskiki var nýttur fyrir kartöflur og rófur, enda er sagt að fögrum konum fari mjög fækkandi á seinni tíð á Akranesi, að ég ekki tali um kartöflustofninn, það er hrein tilviljun að sjá gömlu góðu Akraneskartöflurnar hér í þessum bæ.“

 

Allt fram til áranna 1960-1970 gaf kartöflurækt Akurnesingum mikilvægar aukatekjur. Fullorðnir Akurnesingar minnast þess þegar kartöflur voru víða ræktaðar í görðum á milli húsa. Margir áttu þá kýr og var mykjan notuð í garðana. Sumir garðeigendur fóru í fjörurnar á haustin og öfluðu þangs, sem þeir létu rotna yfir veturinn og notuðu síðan sem áburð í garða sína næsta vor.

Það er af sem áður var því nú sjást kartöflu- garðar ekki á mörgum stöðum innan bæjar- markanna. Þar sem kartöflugarðarnir breiddu úr sér forðum standa núna hús, blómagarðar og götur.