Sr. Jón M. Guðjónsson, Stofnandi Byggðasafnsins

Minningargrein í Morgunblaðinu 31.05.2005

Jón fæddist í barnaskólahúsinu á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 31. maí 1905 og var skírður fullu nafni Jón Guðmundsson í minningu móðurföður síns. Seinna nafnið felldi hann hins vegar niður síðar á ævinni og tók upp í staðinn upphafsstafinn í nafni móður sinnar, M(argrétarson).

Jón var frumburður hjónanna Guðjóns Péturssonar útvegsbónda og formanns, f. 1874, d. 1938, og Margrétar Jónsdóttur ljósmóður, f. 1883, d. 1963, sem gengið höfðu í hjónaband skömmu fyrir jólin 1904 og byrjað búskap á Efri-Brunnastöðum. Bæði voru af sjósóknurum komin. Foreldrar Guðjóns voru hjónin Pétur Jónsson útvegsbóndi og Guðlaug Andrésdóttir í Brekku og Nýjabæ í Vogum, en foreldrar Margrétar voru hjónin Jón Guðmundsson útvegsbóndi og Guðrún Guðbrandsdóttir á Hópi í Grindavík.

Skömmu eftir að Guðjón og Margrét hófu búskap á Efri-Brunnastöðum brann íbúðarhúsið og bjuggu þau þá skamma hríð í barnaskólanum, þar sem Jón fæddist, en síðan um næstu fjögur ár í þurrabúðinni Vorhúsum skammt frá. Árið 1909 fluttu þau í nýbyggt timburhús, þar sem Jón ólst upp fram yfir fermingu ásamt yngri systkinum sínum sem voru: Petrea Guðlaug, f. 1909, d. 1968, húsfreyja á Akranesi, Guðmundur Valdimar, f. 1913, d. 1920, og Óskar Valdimar, f. 1921, d. 1923. Hálfbróðir Jóns samfeðra var Karl Sigurður, f. 1895, d. 1986, sem ólst upp hjá föðurforeldrum sínum í Vogunum, en var síðar rafvirki í Keflavík.

Margbýlt var í Brunnastaðahverfinu eins og annars staðar á Vatnsleysuströndinni á þessum tíma. Heimilin höfðu framfærslu af sjósókn og fiskverkun, en einnig lítilsháttar landbúskap. Litlir túnkragar voru umhverfis bæina til að fóðra eina til tvær mjólkurkýr og fáeinar kindur, svo og garðholur til kartöflu- og rófnaræktar. Guðjón var útvegsbóndi að þeirrar tíðar hætti og aflasæll formaður á eigin báti. Gerði fyrst út sexróið áraskip, en lengst af fjögurra manna far. Skipshöfnin var oftast aðkomumenn austan úr sveitum og úr Borgarfirði, en um leið og aldur leyfði hóf Jón róðra með föður sínum. Margrét var lærð ljósmóðir og fetaði að því leyti í fótspor Jórunnar ömmu sinnar sem lengi var yfirsetukona í Grindavík. Ljósmóðurstarfið var erilsamt og krefjandi í fjölmennu umdæmi, en því gegndi Margrét óslitið þau ár sem hún bjó á Vatnsleysuströnd. Hún þótti nærfærin um sjúkdóma, kjarkmikil og hyggin ljósmóðir. Árið 1946 fluttist hún á Akranes, þar sem börn hennar bæði, séra Jón og Guðlaug, voru þá búsett.

Eins og önnur börn á Vatnsleysuströnd gekk Jón í barnaskólann á Brunnastöðum. Eftir fermingu vorið 1919 var hann jafnan í fiskvinnu á sumrin, fyrst á Minni-Vatnsleysu og síðar hjá Einari Þorgilssyni útgerðarmanni í Hafnarfirði, en sumarið 1923 vann hann á síldarplani á Siglufirði. Með þessu aflaði hann sér tekna til að kosta nám sitt við Flensborgarskóla sem hann hóf haustið 1921 og lauk með gagnfræðaprófi vorið 1924. Þá um sumarið vann hann sem fyrr í fiski og reitavinnu í Hafnarfirði, en gekk einnig til liðs við harðsnúinn vinnuflokk sem tók að sér í ákvæðisvinnu losun og lestun togara og uppskipun úr kola- og saltskipum í Hafnarfjarðarhöfn.

Sumarið 1925 urðu nokkur kaflaskipti í lífi Jóns, því þá afréð hann frekara skólanám. Til að auka á auraráðin réð hann sig í kaupavinnu norður í Skagafjörð, sigldi með strandferðaskipi á Sauðárkrók, en hugnaðist ekki vistin og sagði sig úr henni að tveim dögum liðnum! Hélt síðan til Siglufjarðar og gerðist kokkur á mótorbáti sem gerður var þaðan út um sumarið. Um haustið hóf hann nám við nýstofnaða framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akureyri. Þar var þá hafin kennsla í þriggja vetra undirbúningsdeild með sama kennsluefni og yfirferð og tíðkaðist í Menntaskólanum í Reykjavík, en skólinn hafði þó eigi ennþá heimild til að brautskrá stúdenta. Vorið 1926 lauk Jón tilskildum prófum til að öðlast inngöngurétt í fjórða bekk Menntaskólans í Reykjavík. Er það til marks um þröngan efnahag námsmanna og aðstæður á þessum tíma, að eftir vetrardvölina nyrðra afréðu Jón og skólabróðir hans og nafni, Jón Á. Gissurarson, síðar skólastjóri, að ferðast fótgangandi suður til Reykjavíkur. Um haustið innritaðist Jón í menntaskólann. Hann tók nokkurn þátt í félagslífi nemenda, var m.a. ritari málfundafélagsins Framtíðarinnar og einn af gangavörðum skólans (inspector platearum). Á sumrin vann hann ýmis störf, m.a. sem kaupamaður austur í Holtum og við fjósbyggingu Bændaskólans á Hvanneyri. Vorið 1929 lauk hann stúdentsprófi ásamt 34 skólasystkinum sínum.

Að loknu prófi var Jón óráðinn í hvaða háskólanám hann ætti að leggja fyrir sig. Þrennt togaðist á í huga hans: arkitektúr, læknisfræði og guðfræði. Honum óx í augum vegna lítilla fjárráða að leggja til við húsagerðarlistina, sem aðeins yrði numin erlendis og gæfi auk þess tæpast fyrirheit um öruggt lifibrauð. Því hóf hann nám í læknisfræði við Háskóla Íslands haustið 1929. Honum snerist þó fljótt hugur og innritaðist síðar um veturinn í guðfræði, sem var tveimur árum styttra nám og gaf góða von um fastlaunað starf. Ein af ástæðum Jóns fyrir þessu vali var einfaldlega sú, að í vændum var heimilisstofnun með tilsvarandi ábyrgð. Þennan vetur kynntist hann tvítugri stúlku úr Reykjavík, en ættaðri af Vatnsleysuströnd, Jónínu Lilju Pálsdóttur, á dansleik sem haldinn var í barnaskólahúsinu á Brunnastöðum. Eftir það áttu þau samleið til æviloka og giftu sig 18. okt. 1930.

Jónína Lilja eins og hún hét fullu nafni fæddist á Ísafirði 15. janúar 1909. Foreldrar hennar voru Páll Einarsson skipasmiður, vélgæslumaður og bátsformaður, f. 1871, d. 1914, frá Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd, og sambýliskona hans, Pálína Jónsdóttir, f. 1872, d. 1954. Systkin Lilju voru sjö talsins, tvö alsystkin, Guðbjörg Sigríður, f. 1907, og Guðmundur, f. 1910, d. 1941, fjögur hálfsystkin samfeðra og ein hálfsystir sammæðra. Foreldrar Lilju höfðu flust vorið 1908 frá Reykjavík vestur á Ísafjörð þar sem Páll stundaði mest sjó sem formaður á vélbátum. Árið 1912 fluttust þau aftur til Reykjavíkur. Þar stundaði Páll sjóinn sem fyrr og haustið 1914 fór hann til Seyðisfjarðar við þriðja mann til að sækja vélbát, sem þeir hugðust sigla til Reykjavíkur og gera út þaðan á vetrarvertíðinni. Lögðu þeir upp frá Seyðisfirði um miðjan nóvember ásamt fjórða manni, en hrepptu aftakaveður undan Suðurlandi og urðu tvívegis að snúa til baka. Hinn 24. nóvember sigldu þeir frá Fáskrúðsfirði og spurðist hvorki til bátsins sé áhafnar hans upp frá því.

Eftir drukknun Páls bjó Pálína ásamt börnum sínum þremur í þröngu leiguhúsnæði víða í Reykjavík og stundaði þá vinnu sem til féll, einkum fiskþvott og breiðslu. Á sumrin dvaldist Lilja í sveit hjá frændfólki sínu, gekk í Miðbæjarskólann á veturna og vann ýmsa tilfallandi vinnu uns fundum þeirra Jóns bar saman.

Búskap sinn hófu ungu hjónin við kröpp kjör í tveimur leiguherbergjum að Framnesvegi 50. Þar fæddist fyrsta barn þeirra, 1. nóv. 1930, og var skírt skemmri skírn, Ást, en lést daginn eftir. Meðan Jón stundaði guðfræðinámið eignuðust þau tvö börn til viðbótar með rösklega eins árs millibili. Heimilinu aflaði Jón tekna með ýmsu móti, var m.a. eitt sumar á síld fyrir norðan og vann í Sænska frystihúsinu í Reykjavík um tíma. Sumrin 1931 og 1932 starfaði hann sem lögregluþjónn á Siglufirði, enda hávaxinn og sterkur. Glaðlyndi hans, einlæg sáttfýsi og ljúft viðmót voru þó þeir eðliskostir sem að bestum notum komu þegar stilla þurfti til friðar á róstusömum tímum í síldarplássinu. Þessi sumur dvaldist Lilja einnig nyrðra og vann m.a. við síldarsöltun.

Hinn 15. júní brautskráðist Jón frá Háskóla Íslands með embættispróf í guðfræði, og mánuði síðar eða sunnudaginn 16. júlí vígðist hann til aðstoðarprests í Garðaprestakalli á Akranesi af Jóni Helgasyni biskupi. Það þótti einstakt happ ungum kandídat að hljóta prestsstarf í góðu brauði svo fljótt að loknu prófi, en enginn hörgull var á útkjálka- og rýrðarbrauðum á þessum tíma. Í þessu efni naut Jón eigin verðleika og góðs námsárangurs, en jafnframt þeirra óvenjulegu kringumstæðna, að sóknarpresturinn á Akranesi, sr. Þorsteinn Briem, gegndi um þessar mundir tvöföldu ráðherrastarfi í ríkisstjórn landsins. Var honum ofviða að sinna söfnuði sínum jafnhliða og leitaði hann því liðsinnis Jóns, samkvæmt ábendingu Jóns Helgasonar, biskups.

Sr. Jón og Lilja fluttust á Akranes þegar að lokinni vígslu og var fyrsta guðsþjónusta hans í Akraneskirkju sunnudaginn 23. júlí. Þau settust að á Kirkjuhvoli, sem sr. Þorsteinn hafði byggt sem embættisbústað réttum áratug fyrr. Þessi vistaskipti voru mikil viðbrigði fyrir hin ungu hjón sem kúldrast höfðu frá því þau hófu búskap í þröngu og misjöfnu leiguhúsnæði. Um miðjan nóvember um haustið var hins vegar fyrirséð að prestþjónustu sr. Jóns á Akranesi lyki um leið og ráðherradómi sr. Þorsteins sumarið eftir. Hin stutta dvöl meðal Akurnesinga var sr. Jóni þó hollur og krefjandi skóli, því vandfyllt var skarð sr. Þorsteins sem naut mikils álits sóknarbúa og var landsþekktur ræðuskörungur. Þessa prófraun stóðst sr. Jón með prýði og ávann sér fljótt hylli ungra sem gamalla, ekki síst sjómanna.

Í byrjun árs 1934 var auglýst laust til umsóknar Holtsprestakall undir Eyjafjöllum. Sr. Jón sótti um brauðið og var kjörinn með miklum meirihluta atkvæða. Fékk hann veitingu fyrir Holti frá 1. júní að telja og fluttist þangað skömmu síðar. Þótt Holt mætti teljast hægt og fámennt brauð miðað við Garðaprestakall var embætti sveitaklerks á þessum árum ekkert værðarstarf. Holtsprestakalli tilheyrðu þrjár sóknir, Ásólfsskála-, Eyvindarhóla- og Stóra-Dalssóknir, þar sem húsvitjað var reglulega og messað allan ársins hring. Á prestssetrinu hafði kirkja verið aflögð 1888 og flutt að Ásólfsskála. Leiðin var því löng og tafsöm til þjónustugjörða meðan allar ferðir voru farnar á hestbaki.

Holt var ein mesta heyskaparjörð á Suðurlandi og því sjálfgefið að sr. Jón efndi til búskapar að hætti annarra sveitapresta þeirrar tíðar. Bar þar einnig nauðsyn til, því prestslaunin voru lág, gestagangur mikill og börnunum fjölgaði ár frá ári eða um sjö á tólf árum. Var því jafnan margt í heimilinu, jafnvel milli 15 og 20 manns þegar flest var. Auk fjölskyldunnar dvöldust þar oft skyldmenni og heimilisvinir um lengri eða skemmri tíma. Einnig vinnustúlkur og vinnumenn til aðstoðar við búverkin. Prestssetrið var miðstöð byggðarinnar og gestkvæmt flesta daga, enda bréfhirðing og símstöð á heimilinu.

Heimilishald og bústjórnin hvíldi mjög á herðum Lilju þessi árin, því auk embættisstarfa hlóðust á sr. Jón ýmis félags- og trúnaðarstörf með tilheyrandi ferðalögum og fjarveru frá heimili. Hæst bar þar hlutdeild hans í stofnun slysavarnadeilda víða um land, sem síðar verður getið, en auk þess var hann formaður skólanefndar og sjúkrasamlags Vestur-Eyjafjallahrepps og átti sæti í sýslunefnd Rangárvallasýslu um 10 ára skeið. Eitt síðasta verk hans á þeim vettvangi var að bera fram tillögu um stofnun byggðasafns fyrir Rangárvallasýslu.

Sr. Þorsteinn Briem lét af embætti sóknarprests á Akranesi af heilsufarsástæðum vorið 1946. Kvaddi hann söfnuðinn í Akraneskirkju 23. júní, en þann sama dag fór einnig fram kosning um nýjan sóknarprest í Garðaprestakalli. Meðal umsækjenda var sr. Jón M. Guðjónsson, en ástæður þess að hann afréð að skipta um prestakall og færa sig í þéttbýlið voru einkum þær, að börn þeirra hjóna voru eitt af öðru að komast á gagnfræðaskólaaldur. Héraðsskólinn í Skógum var þá ekki tekinn til starfa.

Sr. Jón hlaut glæsilega kosningu og naut þar þeirra miklu vinsælda sem hann hafði áunnið sér meðal sóknarbúa á árum áður. Var hann skipaður í embættið frá 1. ágúst 1946 að telja og kom til Akraness daginn eftir. Sem fyrr settist fjölskyldan að á Kirkjuhvoli, en hafði nú stækkað að miklum mun frá því fyrr á tíð, - og nokkrum árum síðar bættist yngsta barnið í hópinn. Börnin voru, talin í aldursröð: Pétur Guðjón, f. 1931, Margrét, f. 1933, Sjöfn Pálfríður, f. 1934, Ólafur Ágúst, f. 1936, Helga Gyða, f. 1937, Guðríður Þórunn, f. 1939, Valdimar Óskar, f. 1940, Gyða Guðbjörg, f. 1943, Edda Sigríður, f. 1946, og Jóhanna, f. 1951. Eru þau öll á lífi, og að þeim meðtöldum eru um þessar mundir afkomendur Lilju og sr. Jóns 111 talsins.

Öll prestskaparárin eða til vors 1975 bjuggu sr. Jón og Lilja á Kirkjuhvoli, sem í senn var að vissu marki safnaðarheimili Akraness á þeim tíma. Þar vann sr. Jón flest sín embættisverk, skírði börn og gifti hjón, og þangað áttu sóknarbörn hans stöðugt erindi á sorgar- og gleðistundum. Kirkjuhvoll var sem opinn faðmur hverjum þeim sem þar knúði dyra. Öllum var mætt af hjartahlýju og vinsemd húsráðenda og jafnframt veitt af rausn og höfðingsskap allt það sem heimilið hafði best að bjóða.

Á langri starfsævi var sr. Jón elskaður, virtur og dáður af sóknarbörnum sínum og samferðamönnum. Prestverk sín vann hann af stakri alúð og ræktarsemi. Hann var góður prédikari og margar tækifærisræður hans rómaðar, ekki síst útfararræður, enda streymdi hjartahlýjan frá hverju orði hans og athöfn. Öll embættisverk sín vann hann af listrænum einfaldleik, látleysi og auðmýkt. Sérstaka rækt lagði hann við ferminguna, sem öll hans fermingarbörn eiga um ljúfar minningar. Trúr sinni jafnréttishugsjón ákvað hann að öll börnin skrýddust hvítum kyrtlum og gerði þar með alla jafna í klæðaburði í húsi Drottins á þessari hátíðarstundu lífs þeirra. Þetta gerði hann að eigin frumkvæði og innleiddi notkun fermingarkyrtla í þjóðkirkju Íslands. Voru kyrtlar fyrst teknir í notkun við fermingu í Akraneskirkju 9. maí 1954, en höfðu að fáum árum liðnum rutt sér til rúms í öllum kirkjum landsins.

Sr. Jón hafði blóð sæfara í æðum og kynntist sjálfur sjósókn með áhættum og harðræði af eigin raun þegar á ungum aldri. Því var sjómannsstarfið honum einkar hugleikið eins og allt innihald og yfirbragð guðsþjónusta hans á árlegum hátíðisdegi sjómanna bar vitni um. Umhyggja og þjónusta sr. Jóns við sóknarbörnin verður þó hvorki vegin né mæld fremur en önnur þau fórnfúsu störf sem að stærstum hluta eru unnin í kyrrþey af kirkjunnar þjónum. Í eftirfarandi umsögn Sigurbjörns Einarssonar biskups er þó dregin upp mynd sem margur geymir í hugskoti sínu:

 

Og alltaf var presturinn til taks, hvort sem erindin við hann voru meiri eða minni. Allir fundu, að það, sem þeir báru fyrir brjósti, hafði óskipta, heilshugar athygli hans. Hagir þeirra og hugðarefni, áhyggjur, gleði og raun, vöktu honum persónulegan áhuga, hljóðláta, einlæga, hjálpfúsa samkennd. Hann var aldrei hlutsamur í mál manna ófyrirsynju. En óspar á íhlutun og liðveislu, beðinn sem óbeðinn, þegar hans var þörf. Og þá lýsti hjartað bjartast úr augum hans, þegar honum veittist náð til að styrkja mædda með orðum sínum og handtaki og gefa eilífa huggun og góða von.

Haustið 1973 óskaði sr. Jón lausnar frá prestskap, en hann hafði þá jafnframt gegnt embætti prófasts í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 9. október 1972. Vegna eindreginna tilmæla sóknarnefndar dró hann lausnarbeiðni sína til baka og féllst á að þjóna sem prestur og prófastur til 1. janúar 1975. Á gamlárskvöld 1974 kvaddi sr. Jón formlega söfnuð sinn á Akranesi og var þeirri guðsþjónustu útvarpað. Hann gegndi þó áfram ýmsum prestverkum á meðan nýkjörinn sóknarprestur og tengdasonur hans, sr. Björn Jónsson, var enn ófluttur á Akranes. Sitt síðasta prestverk vann sr. Jón í Akraneskirkju hinn 6. september 1981, en það var skírn dóttursonar hans.

Eins og gjarnt er um hæfileikaríka menn var sr. Jón kallaður til ýmissa trúnaðar- og félagsstarfa í heimabyggð sinni. Árin 1946-1971 var hann stundakennari við Gagnfræðaskólann á Akranesi, prófdómari 1950-1979 (síðast við Fjölbrautaskólann) og við Barnaskóla Akraness 1947-1974. Af þátttöku hans í félagsstörfum má helst nefna setu hans í sáttanefnd, stjórn Vetrarhjálparinnar og Bíóhallarinnar. Einnig var hann formaður fræðsluráðs kaupstaðarins og átti sæti í menningarráði, náttúruverndarráði, stjórn Skógræktarfélags Akraness, Rótarýklúbbs Akraness og Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Þá gekkst hann fyrir stofnun Stúdentafélags Akraness og Listvinafélagsins á Akranesi og var formaður þess á meðan það starfaði. Jafnframt var hann meðstofnandi og í ritnefnd Bæjarpóstsins.

Enn eru þó ónefnd þau frístundastörf sr. Jóns sem lengi munu lifa meðal þeirra sem njóta. Listrænir hæfileikar hans og einlægur eldmóður, umhyggja fyrir fornum menningararfi og bættum slysavörnum á sjó og landi hafa skipað honum á bekk með bestu sonum þjóðarinnar.

Slysavarnafélag Íslands var stofnað 1928 af brýnni nauðsyn. Á þeim árum drukknuðu árlega svo margir íslenskir sjómenn að helst var jafnað við mannfall annarra þjóða í styrjöldum. Stofnun félagsins leiddi til þjóðarvakningar, þannig að á 25 árum fjölgaði félagsmönnum úr rúmlega 100 í nærri 30 þúsund! Prestar landsins voru í hópi þeirra sem hvað ötulastir voru í útbreiðslustarfi slysavarnafélagsins í upphafi. Fullyrða má þó að enginn í prestastétt hafi til þessa dags lagt baráttunni fyrir bættum slysavörnum landsmanna meira liðsinni en sr. Jón M. Guðjónsson, ef undan er skilinn sr. Oddur V. Gíslason á Stað í Grindavík. Báðir voru þeir brautryðjendur á því sviði, þótt á milli starfa þeirra bæri hálfrar aldar bil.

Á æskuheimili Jóns lifðu bjartar minningar um sr. Odd í frásögnum Margrétar móður hans af þessum hugsjónaríka sóknarpresti Grindvíkinga. Í bernsku hennar var sr. Oddur þjóðkunnur fyrir skelegga forgöngu sína um bættan aðbúnað sjómanna. Frá ársbyrjun 1888 og um næstu fimm ár ferðaðist hann um land allt og flutti fyrirlestra í verstöðvunum um "bjargráð í sjávarháska" og gekkst fyrir stofnun "bjargráðanefnda". Þær voru með vissum hætti undanfari slysavarnadeildanna, sem sr. Jón gekk ákafast fram í að stofna í hinum dreifðu byggðum hálfri öld síðar.

Allt frá bernskudögum var sr. Jón meðvitaður um þær slysahættur sem stöðugt vofðu yfir sjómönnum og ógnuðu um leið lífshamingju fjölskyldnanna í landi. Uppvöxtur við brimasama strönd og vá hafsins mótaði æ síðan hug hans og umhyggju fyrir sjómannastéttinni. Sjálfur mátti hann þola þá raun að náfrændi hans og æskuvinur, Pétur Guðjón Andrésson frá Nýjabæ, féll útbyrðis og drukknaði af opnum vélbáti úr Vogum í apríl 1928.

Árið 1935 kvaddi sr. Jón sér hljóðs á vettvangi slysavarnamála, þá þjónandi í Holti. Þá var ennþá alltítt að sveitamenn færu til sjós í verstöðvunum og bændur sóttu enn sjó úr Holtsvörum og víðar sunnanlands á opnum árabátum. Slysavarnadeildir voru hins vegar óþekktar til sveita fyrr en sr. Jón hafði forgöngu um það árið 1935 að stofnaðar voru deildirnar Bróðurhöndin og Unnur í Eyjafjallahreppunum. Á næstu árum fékk hann til liðs við sig nokkra harðsnúna sjálfboðaliða, ferðaðist víða um land, hélt erindi um slysavarnamál og beitti sér fyrir stofnun fjölmargra nýrra félagsdeilda eða fleiri en nokkur annar í sögu Slysavarnafélags Íslands. Slíka leiðangra fór hann einnig eftir að hann fluttist á Akranes a.m.k. fram um 1950 til að glæða áhuga fólks og stofna nýjar deildir. Hinn 25. apríl 1968 var sr. Jón gerður að heiðursfélaga Slysavarnafélags Íslands og Akurnesingar hafa heiðrað starf hans í þágu slysavarnamála með því að nefna félagsheimili slysavarna- og björgunardeildanna Jónsbúð.

Um miðbik síðustu aldar hófst víða hreyfing í dreifðum byggðum landsins um að safna minjum úr hversdagslífi alþýðu og efna til byggða- og minjasafna. Flest rekja þau söfn upphaf sitt til frumkvæðis einstaklinga, sem af sögulegum áhuga og ræktarsemi við heimabyggð sína hófu sjálfir söfnun. Brautryðjendastarf þeirra naut þó sjaldnast í fyrstu mikils skilnings meðal almennings og stjórnvalda. Einn þessara vökulu ármanna var sr. Jón M. Guðjónsson, sem í þessum efnum þekkti sinn vitjunartíma meðan aðrir sváfu á verðinum. Um nærri þrjátíu ára skeið varði hann hverri tómstund sem gafst frá annasömu prestsstarfi til að bjarga frá glötun þeim menningarverðmætum sem á mótum nýrra tíma var vikið til hliðar vegna breyttra þarfa og lífshátta. Fyrir honum vakti björgun og varðveisla svo að komandi kynslóðir mættu fræðast og njóta.

Árið 1949 hreyfði sr. Jón fyrst með formlegum hætti hugmynd sinni um stofnun minjasafns fyrir byggðirnar sunnan Skarðsheiðar, - samtímis á fundi í Stúdentafélagi Akraness og með bréfi til nýstofnaðs Menningarráðs Akraness. Málinu var vel tekið, en enginn varð þó til að taka af skarið og hefjast handa. Á næstu árum nýtti sr. Jón sérhvert tækifæri til að brýna sveitunga sína og bæjaryfirvöld til dáða, - bæði í ræðu og riti. Hann hafði fengið augastað á gamla prestsbústaðnum í Görðum sem samastað fyrir minjasafnið. Húsið var sjálft gagnmerkur safngripur sem fyrsta íbúðarhús á Íslandi sem byggt var úr steinsteypu á árunum 1876-1882. Eftir að heimild fékkst vorið 1956 til að nýta það sem safnhús og gera á því nauðsynlegar endurbætur beið sr. Jón ekki boðanna og hóf söfnun muna af fullum krafti á Akranesi og í nágrannasveitum. Viðbrögð almennings voru misgóð, en með elju og þrautseigju rann um síðir upp sú stund sunnudaginn 13. des. 1959 að Byggðasafnið í Görðum var opnað við hátíðlega athöfn, þar sem hverjum grip var búinn staður af smekkvísi og hugkvæmni.

Við formlega stofnun byggðasafnsins afhenti sr. Jón sveitarstjórnunum sunnan Skarðsheiðar að gjöf sitt áratugar langa eljustarf. Með þeirri gjörð hugðist hann draga sig í hlé af þessum vettvangi og eftirláta öðrum kyndilinn. Taldi hann brautryðjandahlutverki sínu lokið og að nú væri annarra skylda að taka við. Því hógværa tilboði var hins vegar ekki tekið og um næstu 20 ár sáu ráðamenn sér ekki fært að fela byggðasafnið í hendur fastráðnum starfsmanni. Uppbygging og umsjón þess varð því eftir sem áður hlutskipti sr. Jóns sem ótilkvaddur helgaði því krafta sína á meðan heilsan leyfði. Stöðugt hélt hann úti spurnum um minjar og muni sem þarflegt væri að geymdust til frambúðar. Tómstundum sínum varði hann í safninu við að þrífa, skrásetja, merkja og hagræða gripum þess. Að meðhöndlun þeirra vann hann af sömu natni og umhyggju og hann auðsýndi eigendum þeirra, lífs og liðnum. Barómet sjómannsins, spengd grautarskál þurfalingsins og herðasjal þurrabúðarkonunnar voru dýrgripir í huga Jóns. Þeir voru vitnisburður um horfinn menningarheim, brauðstrit og nægjusemi fátækrar alþýðu sem umgangast bæri af auðmýkt og lotningu.

Heima á Kirkjuhvoli varði sr. Jón næðisstundum sínum um kvöld og helgar til frágangs sýningartexta, innrömmunar mynda, gerðar líkana, teiknunar torfbæja og fjöldamargs annars sem laut að þörfum safnsins. Um verkalaun var ekki spurt og vökulögin í engu virt. Ætíð naut hann aðstoðar barna sinna sem hvergi spöruðu við sig þá eða síðar að hlaupa undir bagga með honum. Vænst þótti honum þó um stuðning og hvatningu Lilju, sem alla tíð var þolinmóður liðsmaður hugðarefna hans og hugsjóna.

Sr. Jón var ötull og hugmyndaríkur safnamaður sem jafnan verður minnst fyrir framsýni og stórhug. Ungur stóð hann á fjörukambinum undan Brunnastöðum og hreifst af hinum hljóðlátu og hraðskreiðu seglskútum sem með barkarlituðum seglum ristu sjávarflötinn við sjónarrönd. Þetta var í upphafi 20. aldar og á lokaskeiði skútutímabilsins, þegar kútterar mynduðu aðalstofn fiskiflotans. Áratugum síðar eða um 1970 kvaddi hann sér hljóðs á opinberum vettvangi um þennan forna skipastól, sem þá var fyrir löngu aflagður eða seldur úr landi. Lagði hann til að íslenska þjóðin sameinaðist um að endurheimta einn hinna gömlu kúttera sem enn væru ofansjávar í Færeyjum til að endurbyggja og varðveita í minningu hins stórbrotna byltingarskeiðs í íslenskri útgerðarsögu. Þessi hugmynd sr. Jóns hlaut þjóðarathygli. Var hún ýmist forsmáð af úrtölumönnum eða lofuð af hinum framsýnu. Leiðtogar lands og sjávarútvegs daufheyrðust hins vegar við þessu ákalli. Við slíku tómlæti átti sr. Jón eins og oftar aðeins eitt svar: að róa einn á miðin í þeirri von og vissu, að síðar legðust aðrir með honum á árar. Þann liðstyrk fann hann í Kiwanisklúbbnum Þyrli á Akranesi með því að félagsmenn afréðu að gangast fyrir kaupum og heimflutningi á kútter Sigurfara frá Klakksvík sumarið 1974. Þótt með því væri aðeins hálfur sigur unninn munu Íslendingar standa í ævarandi þakkarskuld við þá og sr. Jón fyrir áræðið.

Snemma kom í ljós listræn hneigð og hagleikur sr. Jóns. Í barna- og gagnfræðaskóla bar hann af öðrum nemendum í teikningu og hafði jafnframt fagra og stílhreina rithönd. Lengi framan af ævi stóð hugur hans til þess að læra myndlist eða húsagerðarlist, en aðstæður og efnaleysi komu í veg fyrir að slíkir draumar rættust. Er þó ekki að efa að á þeim sviðum hefði hann unnið sér álit og frama. Engar teikningar eða skissur frá æsku- og þroskaárum hans hafa varðveist og flest af því sem síðar var dregið upp í dagsins önn er glatað og gleymt. Ástríða hans við að halda til haga fornum minjum og handverki fólks náði ekki að sama skapi til varðveislu eigin hagleiksverka. Sr. Jón var þó síteiknandi og á árunum í Holti urðu m.a. til á skrifborði hans uppdrættir af mannvirkjum sem fæst komust á byggingarstig. Eftir teikningu hans var þó árið 1944 steyptur grunnur að nýrri sóknarkirkju á Ásólfsskála, veglegu og fögru guðshúsi með tveimur turnum sem leysa átti af hólmi hina gömlu kirkju. Efnaleysi safnaðarins réð því hins vegar m.a. að síðar var ákveðið að byggja eftir annarri teikningu.

Dráttlist sr. Jóns og myndsköpun var samofin áhuga hans á íslenskri menningarsögu. Varðveitt listaverk hans eru því einkum af tvennum toga: minnismerki og minningarmörk, teikningar og líkön af fornum híbýlum og atvinnuháttum. Hvorttveggja eru þó greinar á sama meiði. Með hinu fyrrnefnda vildi hann halda á loft minningu um gengna merkismenn og helga staði í þjóðarsögunni. Hið síðarnefnda var órjúfanlegur hluti af þeirri ástríðu hans að forða frá glötun fornum menningararfi Akurnesinga með uppbyggingu Byggðasafnsins í Görðum.

Fyrsta minningarmarkið sem sr. Jón teiknaði og lét reisa í altarisstað Holtskirkju til minningar um fornt helgihald var vígt haustið 1939. Tæpum 20 árum síðar var vígður klukku- og minningarturn, sem byggður var skv. teikningum og fyrirsögn sr. Jóns í kórstæði kirkjunnar í Görðum á Akranesi. Á eftir fylgdu fleiri minnismerki að hans frumkvæði, þ.ám. styttan af sr. Friðriki Friðrikssyni við Lækjargötu í Reykjavík (1956), krossmark í Biskupsbrekku við Hallbjarnarvörður til minningar um andlát Jóns Vídalín biskups (1963), minnismerki drukknaðra sjómanna á Akranesi (1967) og minnisvarði í Görðum um írskt landnám á Akranesi (1974). Einn þátturinn í söfnunarstarfi sr. Jóns var að bjarga frá gleymsku heimildum um húsakynni fólks á Akranesi og í sveitunum sunnan Skarðsheiðar. Árið 1959 og um næstu ár teiknaði hann útlitsmyndir af síðustu torfbæjunum eftir lýsingum kunnugra, varðveittum fyrirmyndum og jafnvel bæjarústum. Myndirnar teiknaði hann margsinnis og lagfærði uns ekki var nær komist með þeim ráðum sem tiltæk voru. Frá hans hendi eru varðveittar um 80 blýantsteikningar af torfbæjum og öðrum bæjarhúsum. Þær bera glöggt vitni um brennandi áhuga hans á viðfangsefninu, þar sem saman fór listfengi, næmt auga og óþrjótandi elja við björgun heimilda um menningarverðmæti. Myndirnar sýna húsakynni alþýðufólks á Akranesi og í nágrannasveitum á fyrstu áratugum 20. aldar. Mun líklegast einsdæmi að geymst hafi með þessum hætti vitneskja um fyrri tíðar húsakost úr einu og sama héraði á Íslandi.

Akurnesingar sýndu áþreifanlega þann góða hug sem þeir báru til sr. Jóns fyrir farsæl störf í þeirra þágu. Á 70. afmælisdegi hans, hinn 31. maí 1975, var hann af bæjarstjórn kjörinn heiðursborgari Akraness "í þakklætis- og virðingarskyni fyrir langt og farsælt starf á Akranesi og fórnfýsi og framtak við uppbyggingu Byggðasafnsins í Görðum". Í líkan mund var þeim hjónum, sr. Jóni og Lilju, afhent einbýlishús að Bjarkargrund 31 til ævilangrar íbúðar. Þar stóð heimili þeirra uns Lilja lést 5. september 1980. Sr. Jón flutti nokkrum árum síðar (1984) á Dvalarheimilið Höfða, en síðustu tvö árin var hann rúmfastur á Sjúkrahúsi Akraness. Þar andaðist hann á 89. aldursári að kvöldi hins 18. febrúar 1994 og var jarðsettur við hlið konu sinnar í kirkjugarðinum í Görðum.