Lífið til sjós

Fáar þjóðir reiða sig jafnmikið á gjafir hafsins og Ísland. Búskapur var helsta viðurværi þjóðarinnar frá landnámi og fram á 19. öld en samhliða þrifust staðir eins og Akranes þar sem sjósókn tók búsýslunni fram.

Það var einmitt sjósókn sem lagði grunn að þéttbýlismyndun á Akranesi. Um miðja 17. öld mun hafa myndast hér einn fyrsti vísir að íslensku sjávarþorpi og allar götur síðan hafa fiskveiðar og fiskvinnsla átt ríkan þátt í þróun byggðarlagsins.