Nú styttist óðum í opnun safnsins. Stefnt er að opnun 2. júní en eins og gefur að skilja er sumaropnunin seinna á ferðinni en í hefðbundnu árferði. Í vetur hefur starfsfólk safnsins, ásamt ýmsum samstarfsaðilum, unnið hörðum höndum að gerð nýrrar sýningar í aðal sýningarhúsi safnsins og verður spennandi að sjá hvernig gestum mun lítast á. Meðal nýjunga á nýrri sýningu verður hljóðleiðsögn um sýninguna. Hljóðleiðsögnin verður í boði bæði á íslensku og ensku. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna lítur út fyrir að hljóðleiðsagnarbúnaður verði ekki kominn til landsins strax við opnun. Við erum bjartsýn á að aðstæður á Englandi fari batnandi og að samstarfsaðili okkar þar í landi geti snúið til starfa von bráðar og að búnaðurinn skili sér áður en langt um líður. Við hlökkum til að taka á móti ykkur.