Tvær sumarsýningar voru opnaðar þann 17. júní.

BÆRINN OKKAR | FJALLIÐ OKKAR er staðsett í nýju sérsýningarými á annarri hæð safnsins. Á sýningunni eru listaverk í eigu Byggðasafnsins og Akraneskaupstaðar. Verkin eru eftir ýmsa listamenn en öll eiga það sameiginlegt að myndefnið er Akranes og/eða Akrafjall. Nokkur verkanna hafa verið hluti af grunnsýningu Byggðasafnsins en munu ekki verða hluti af nýrri grunnsýningu sem ráðgert er að opna á 60 ára afmæli safnsins, í lok árs 2019.

HORFNIR TÍMAR | VINKONUR er ljósmyndasýning í tengigangi á jarðhæð safnsins. Á sýningunni eru stúdíóljósmyndir Árna Böðvarssonar (1888–1977) af nokkrum vinkonum, sumum nafngreindum en öðrum óþekktum. Árni byrjaði að fást við ljósmyndun upp úr 1913 og rak ljósmyndastofu á Akranesi samhliða öðrum störfum. Myndirnar eru úr safni Ljósmyndasafns Akraness.