Mánudaginn 23. apríl fór fram úthlutunarboð Safnaráðs 2018 vegna aðalúthlutunar úr Safnasjóði. Styrkþegar fimm hæstu verkefnastyrkjanna kynntu verkefni sín í boði þessu og kynnti Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar- og safnamála á Akranesi umfang og markmið verkefnisins Ný grunnsýning. Verkefnastyrkurinn hljóðaði upp á 3.000.000 krónur og safnið hlaut jafnframt rekstrarstyrk að fjárhæð 800.000 krónur.

Hlutverk og tilgangur Safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum. Viðurkennd söfn, önnur en söfn í eigu ríkisins, geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Byggðasafnið í Görðum er viðurkennt safn.

Árið 2018 úthlutaði mennta- og menningarmálaráðherra, að fenginni umsögn safnaráðs, alls 114.770.000 krónum úr Safnasjóði. Þar af voru verkefnastyrkir alls  90.620.000 krónur til 88 verkefna, auk þess sem 24.150.000 krónum var úthlutað í rekstrarstyrki til 35 safna.
Alls bárust 146 verkefnaumsóknir og veittir styrkir voru á bilinu frá 200.000 kr. til 3,0 milljónir króna.