Á safninu er nú unnið að nýrri grunnsýningu. Núverandi sýning hefur staðið lítið breytt í ríflega fjörtíu ár eða frá því að sýningarhús safnsins var opnað 1975 en fyrirhugað er að ný sýning verði fullkláruð síðla árs 2019, á sextíu ára afmæli safnsins.

Í ágúst hóf Valgerður G. Halldórsdóttir störf sem verkefnisstjóri nýrrar grunnsýningar. Valgerður er með meistaragráðu í menningarstjórnun og hefur lengst af starfað við hönnunarstjórn í auglýsingageiranum. Undir hennar stjórn hefur frásögn nýju sýningarinnar verið í smíðum m.a. í samvinnu við svonefndum sagnahóp sem skipaður er Ingibjörgu Pálmadóttur, Jóni Gunnlaugssyni, Heiðari Mar Björssyni og Petrínu Ottesen ásamt fulltrúum safnsins.

Markmiðið með nýrri grunnsýningu er að gera menningararfi og sögu svæðisins skil, í takt við þarfir safngesta nútímans, meðal annars með því að bæta við fjölbreyttri hljóðleiðsögn um sýninguna og gera sýninguna aðgengilegri á allan hátt. Meðal nýjunga verða sérsýningarými og kvikmyndarými þar sem efnistök verða fjölbreytt og boðið verður upp á breytilega dagskrá. Enn fremur er markmiðið að safnið verði enn eftirsóttari áfangastaður heimamanna og ferðamanna, bæði erlendra og innlendra.